7.6.2008 | 13:56
Siglingar og Istanbul
Dagur 3: Vid byrjuðum daginn á smá viðgerð á bakpokanum mínum (Kára) sem hefur farið gegnum margt á sínum æviferli. Fjellraven er algjört stál. Náðum rútu frá Marmaris upp til Gökova flóa. Tyrknesk kona sýndi hversu almennileg þjóðin er með því að leiðrétta "óréttláta" rukkun á rútufarinu. Hún þurfti líka að æpa á rútubílstjórann til að hleypa okkur út á réttum stað. Við gengum niður til hafnarinnar í bænum Akyaka þar sem skipstjóri skemmtiferðarbáts kallaði til okkar þegar báturinn var kominn hálfa leiðana út úr höfninni. Okkur var skutlað af litlum mótorbát upp til Alexar skipstjóra ásamt fríðum saumaklúbbi miðaldra tyrkneskra kvenna.
Tyrknesk tónlist glumdi uppi á þilfari þar sem Þórhildur lærði nokkur dansspor heimamanna. Kastað var akkeri við litla fámenna strönd. Við sömdum við skipstjórann um að hoppa út á ströndinni og keyptum af honum dagsbirgðir af mat. Kári fékk lánaða vindsæng af tyrknesku pari á ströndinni til þess að koma bakpokunum okkar í land. Planið var að gista á ströndinni undir berum himni. Eftir góðan sundsprett og smá gullfiskaskoðun í kristaltærum sjónum ákvað betri helmingur föruneytisins að pöddur svæðisins myndi ógna friði hennar á annars fullkomnlega friðsamri stönd. Við fengum því far á palli traktors að lítilli bryggju þar sem nokkrir skemmti- og fiskibátar lágu í lygnum sjó Gökova flóa. Á bryggjunni blönduðum við geði við mjög áhugasama heimamenn og fengum að gista uppi á þilfari eins skemmtiferðabátsins ("The Jolly Sailor"). Þilfarið var alsett sólbekkjum og eyddum við kvöldinu undir stjörnubjörtum himninum.
Dagur 4: Gjallarhorn mosku í fjarska vakti okkur með bænakalli. Kári (sem má teljast óvarkárari) var doppótur af moskítóbitum eftir nóttina. Við sömdum við fyrsta bátinn sem lagði úr höfn um far til eyju Kleópötru. Sagan segir að Markús Antóníus keisari hafi farið með Kleópötru til eyjarinnar og haft meðferðis býsn af hvítum sandi frá Afríku. Eyjan er talin hafa verið ferðamannastaður fornaldar og er þar að finna ýmsar rústir þ.á m. hringleikahúss. Við könnuðum eynna og veltum því fyrir okkur hvernig við ættum að komast heim þar sem við áttum enga peninga eftir. Hoppuðum upp á skemmtibát fullan af rússneskum túristum og borguðum þegar komið var til lands. Siglingin var löng og margsinnis stoppað til að synda í sjónum. Við náðum rútu til Mugla þar sem áætlunin var að ná rútu til Efesus (efes) og skoða þar fornar rústir. Þegar við komum til Izmir (3ja stærsta borg Tyklands) var enga rútu að fá til Efesus svo við ákváðum að sveigja planið í U-beygju og tókum næturrútu til Istanbul.
Dagur 5: 10 tíma rútuferð helvítis. Ekki möguleiki að festa svefn í troðfullri rútunni. Ekkert klósett um borð en rútuþjónninn var duglegur við að bjóða öllum vatn og te. Hann hló þegar Þórhildur spurði hvort það væri klósett um borð. Kári kynntist tyrkneskum enskukennara sem kunni afskaplega takmarkaða ensku. Hann vildi endilega að ég (Kári) tæki upp islam og "konan" mín líka. Hann las fyrir mig upp úr kóraninum á arabísku og sagðist vera að fara í eins dags ferð til Istanbul til að skoða moskur og biðja. Tvisvar sinnum 10 tíma rútuferð fyrir hann!
Þegar til Istanbul var komið kl 10 um morguninn fundum við okkur hostel, sem var spölkorn frá hostelinu sem ég og Burgess gistum á fyrir fjórum árum. Við hreinsuðum af okkur uppsafnaðann skít og komumst í langþráða sturtu. Við vorum komin til Istanbul í erindagjörðum. Við þurfum að redda okkur vegabréfsáritun til Sýrlands. Sýrlenska konsúlatið í Istanbul vildi ekkert með okkur hafa og vísuðu okkur til Ankara þar sem íslenskt sendiráð átti að vera (þetta reyndist bull). Við höfðum samband við íslenska ræðismanninn í Istanbúl, Kazim Munir, sem gerði grín að bjúrókratíunni og sagðist ætla að redda okkur á svipstundu. Gallinn við allt þetta var að það var föstudagur og við þurfum að bíða fram á mánudag til að leggja inn umsókn um vegabréfsáritun. Það vill segja að við verðum í Istanbul a.m.k. fram á mánudag. Við sofnuðum kl 17 um daginn og vöknuðum ekki aftur fyrr en kl 9 næsta morgun (já! 16 tíma svefn).
Biðjum að heilsa öllum heima. Agnar, Gunni, Freyr og Siggi: Til hamigju með afmælin!
Athugasemdir
Þetta finnst mér ótrúlega girnilegt hjá ykkur! Vona að námslánin mín dugi einhvern tímann fyrir svona ferð... ;-)
Björg (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 16:56
Jájá þið virðist hafa það helvíti fínt, ekkert væl. Flottar myndir! Fylgjumzt spennt með.
kv. Sigurbjörg
p.s. Þórhildur, þín verður sárt saknað í sumarfimleikum sem hefjazt í kvöld. Stefnir í e-ð rugl með Ella og einhverjum strákling sem virðist enn klikkaðri...
Sigurbjörg (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 13:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.