Paradísin Dahab

Það er orðið nokkuð langt síðan síðasta færsla datt inn. Við erum búin að spóka okkur við og ofan í Rauðahafinu í yndislega rólegum bæ, Dahab (meira neðar).

5.-6. júlí: Eftir að við komum aftur til Kaíró, höfuðborgar Egyptalands vorum við úrvinda. Við eyddum deginum á bazarnum og píndum okkur til að stilla vekjaraklukkuna (enn og aftur) til að komast snemma á Giza sléttuna. Ástæðan er sú að miðar inn í stærsta pýramídann (Cheops) eru af skornum skammti (ekki hugmynd af hverju) þ.a. fyrstir koma fyrstir fá. Við vorum fyrst. Ástralinn eldhressi, Andrew var með í för og pýramídinn mikli tók á móti okkur þremur í morgunsárið. Gangurinn inn í stórvirkið vorum mjög þröngur og lágur. Hann lá hátt upp á við og við þurftum að draga djúpt andann til að hemja innilokunarkenndina. Við komumst loks í grafhýsið (sem ekki er vitað hvort nokkurntíma hafi verið notað sem grafhýsi) þar sem við teygðum úr okkur. Þegar út var komið klifruðum við með heimamanni upp á minnsta pýramídann af þremur gegn sæmilegri þóknun undir borðið, þar sem það er bannað að klífa pýramídana. Þessi heimsókn nr. 2 til Giza reyndist mun skemmtilegri en sú fyrri þar sem leiðsögumaður takmarkaði frelsi okkar. Kvöldinu eyddum við með hópnum okkar sem kvaddist eftir 23ja daga samveru. Daginn eftir tókum við næturrútu til fyrirheitna landsins, Dahab.

7.-14. júlí, Dahab: Eftir 9 tíma akstur frá Kaíró komum við upp að Rauðahafinu á Sinai skaga þar sem við höfðum farið gegnum með hóðnum okkar viku áður. Dahab er einmitt sú tegund af bæ sem maður vill hangsa í og slappa af. Hérna er fólk á aldrinum 16-80 (lítil um börn), langmest ferðamenn. Dahab er þó ótrúlega rólegur og huggulegur bær sem lætur líta út fyrir að það séu tiltölulega fáir ferðamenn í bænum. Allir veitingastaðir og kaffihús hafa sessur, teppi og púða í stað hefðbundinna stóla og borða. Flestir spila rólega tónlist (Bob Marley virðist enn vera a[almaðurinn) með útsýni yfir Rauðahafið þar sem fjöll Saudi Arabíu sjást í fjarska. Veitingahúsin og hostelin bera öll mjög rastaleg nöfn þ.á.m. Crazy House, ChillOut Cafe, The Laughing Buddah og The Funny Mummy. Hérna kostar ágætur matur með drykk um 300 kall og nóttin á hóteli kostar minna en tjaldstæði á Íslandi (ca 700 kjall). En þrátt fyrir frábæra stemmingu og þjónustu á landi þá er bærinn aðeins umgjörð fyrir fjársjóðinn sem leynist neðansjávar. Það þurfti aðeins snorklgræjur til að sjá hversu fjölbreytt og litríkt lífríkið er meðfram kóralrifinu í Rauðahafinu. Eins og að synda í heimsins stærsta fiskabúri. Fyrsta daginn okkar í Dahab byrjuðum við í Open Water Diver námskeiði með góðum kafaraklúbbi. Okkur blöskraði í fyrstu vinnan bak við námskeiðið sem samanstóð af kennslumyndböndum, kennslubók, skyndiprófum og tveimur köfunum á dag. Kennarinn okkar er hinn mesti karakter. Jackie er rastaman frá Súdan. Hann er þaulreyndur kafari, biksvartur með dredda og brosir meðan hann syngur búta úr Bob Marley lögum til að fylla upp í þögnina. Eftir fjörgurra daga prógramm getum við stolt sagst vera PADI Open Water kafarar. En við vildum meira. Við tókum einn dag í frí til að slappa af og hugsa um eitthvað annað en köfun (enduðum á því að snorkla allan daginn) og byrjuðum í dag á framhaldsnámskeiði, PADI Advanced Open Water Diver Course. Með þetta leyfi megum við fara niður á 30 metra dýpi sem er nóg til að sjá allt það besta sem Rauðahafið hefur upp á að bjóða. Eftir tvo daga förum við síðan með hóp í bátsferð á helstu staðina þar sem við munum m.a. kafa niður að flaki herskipsins SS Thistelgorm sem sökkt var í síðari heimstyrjöldinni (1941). Myndbandið sýnir svipmyndir frá kóralnum í Ras Mohammed sem við munum heimsækja innan skamms (fann þetta á youtube. Lýsir vel því sem við upplifum dags daglega hér í Dahab).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband