8.7.2008 | 19:33
Kaíró - Aswan - Luxor - Kaíró
Síðan síðasta færsla var sett inn höfum við ferðast um Egyptaland. Síðasta upplifunin áður en við fórum frá Kaíró var hörkurifrildi tveggja Egypskra bílstjóra sem höfðu lent í litlum árekstri. Eftir góð orðaskipti byrjuðu höggaskiptin fyrir alvöru. Egyptar útkljá mál sín yfirleitt á gamla mátann. Þetta endaði allt með því að annar bílstjórinn fór upp í bílinn sinn og keyrði á fullri ferð á hinn sem skall á húddið og þaðan í götuna (slapp þó ómeiddur). Við upplifum okkur þó mjög örugg sem ferðamenn. E.t.v. er það vegna þess að það eru virkilega harðar refsingar gagnvart glæpum gegn ferðamönnum. Fólkið hérna er þó mjög indælt og almennilegt.
1. júlí: Við tókum 14 tíma langa næturlest frá Kaíró niður með Níl til Aswan. Aswan er týpiskur Egypskur bær við Níl. Túrisminn er inni í miðbænum og heimamenn búa allt í kring. Áreytið er órtúlega mikið: "Hello my friend", "where are you from?", "Look at my shop. Nice price for you." "Camel ride?" Síðan bætast við alls kyns skítatrikk til að fá mann til að stoppa: "Hey mister you dropped something", "Can you help me write an English address?", "Hey, remember me? I work at your hotel!", "This way is closed, need a taxi?" Við spjölluðum við nokkra sölumennina um fjölskyldu þeirra og líferni (maður fær betra verð þannig) og drifum okkur svo í háttinn þar sem verkjaraklukkan var stillt á 4:00 næsta morgun.
2. júlí, Hofadagurinn mikli: Abu Simbel er risavaxið hof sem var byggt af faró með hið mesta mikilmennskubrjálæði, Ramses II. Abu Simbel hofið fór undir vatn þegar Egyptar gerðu sína Kárahnjúkavirkjun en með risabjörgunarverkefni UNESCO var hofið, og allur kletturinn sem það var hoggið í, bútað niður og fært upp á bakkann. Myndirnar af Abu Simbel tala sínu máli. Allir morgnar þessa hluta ferðarinnar voru erfiðir þar sem við vöknuðum ofursnemma til að forðast hitann yfir miðjan daginn. Hitinn hefur mest farið upp í 44 stig og okkur er sagt að við séum heppin miðað við árstíma. Úff! Þegar komið var tilbaka til Aswan fórum við í bátsferð á Nílarfljóti. Við sigldum á felucca (skútu) um friðsælt fljótið með þéttan gróður til beggja handa. Eftir góðan sundsprett í litlum flúðum í Níl skoðuðum við lítið sveitaþorp þar sem við snæddum kvöldverð hjá heimamönnum. Besti kvöldmatur ferðarinnar! Við sofnuðum á huggulegu þilfari skútunnar sem var alsett dýnum og púðum (og buðum moskítóflugunum í veislu).
3. júlí: Eftir siglingu í land morguninn eftir tók við 3ja tíma (heit) rútuferð í lítilli rútu upp með Nílarfljóti þar sem stoppað var til að skoða nokkur mikilfengleg hof. Á þessu stigi hefur maður þróað upp ónæmi gegn stórkostlegum hofum þöktum veggmyndum og híraglýfri. Það er svosem ekkert skrýtið að við skulum vita svona mikið um Egypska fornmenningu sem ritaði jafngildi þykkra binda í stein. Við komum til Luxor um eftirmiðdaginn og skoðuðum síðasta, og stærsta hof dagsins, Karnak. Áreytið í Luxor var á pari við það í Aswan, rúmlega töluvert. En þegar hér var komið við sögu var maður farinn að læra að spila á heimamenn tilbaka. T.d. virkaði vel að reyna að selja þeim eitthvað á móti t.d. derhúfu. Þá nenntu þeir ekki að taka þátt í gríninu og létu mann í friði. Eða að bjóðast til að kaupa fötin sem þeir voru í. Eða bara babbla eitthvað á íslensku.
4. júlí: Vekjaraklukkan hringdi klukkan 5:30 (þetta er farið að vera þreytandi) til að skutlast upp á asnabak til að ríða inn í "Valley of the Kings". Dalurinn er sá staður sem faróarnir byggðu sér neðanjarðargrafhýsi skreyttum myndum og híraglýfri. Hérna fannst m.a. frægasta gröf heimsins árið 1922, hin ósnerta gröf Tuthankamons. Við fórum inn í samtals 5 grafhýsi sem allar reyndust langar og djúpar skreyttar með litskrúðugum veggmyndum. Múmía Tuthankamons var áhugaverð þar sem teppi hafði verið lagt yfir búkinn þ.a. aðeins sást í höfuð og fætur. Þegar ég lýsti með vasaljósi undir teppið við hálsinn fannst mér sem höfuðið væri ekki fast á búknum. Leiðsögumaðurinn sagði að líklegt væri að múmían hafi skemmst í einhverjum flutningum og reynt væri að hylja yfir staðreyndinni um hauslausann faróinn. Þótt Valley of the Kings sé þess virði að heimsækja þá verð ég að lýsa vonbrigðum með staðinn. Túrisminn hefur gjörsamlega eyðilagt staðinn og stolið öllu sem gerir hann ekta. Lestar dregnar af golfbílum ferjuðu ferðamennina í hollum upp að vel völdum gröfum þar sem þeir voru leiddir í gegn eins og asnar. Það mátti ekki klífa fjallshlíðina (þrátt fyrir að stígar voru til staðar) því þá fóru kallarnir með vélbyssurnar að öskra. Við riðum á ösnunum tilbaka til Luxor hugsandi að hingað þyrftum við aldrei að koma aftur.
Restinni af deginum eyddum við gangadi um bæinn Luxor. Við gegnum langt út fyrir ferðamannasvæðið þar sem gamlingjar spiluðu backammon og reyktu vatnspípur og kjúklingar voru seldir lifandi í búrum. Við urðum vitni af hörkugötubardaga þar sem tveir ósöp hversdagslegir menn lentu saman og enduðu í blóðugum átökum með kylfu annars vegar og slátrarahníf hins vegar. Við héldum okkur í hæfilegri fjarlægð og okkur hætti að lítast á blikuna þegar menn tóku að loka búðum sínum og lemja eiginkonurnar inn. Við gáfum ungum strák smá þjórfé fyrir að leiða okkur tilbaka í átt að hótelinu. Um kvöldið hentumst við á lestarstöðina til að ná næturlest aftur til Kaíró. Maraþoninu um veldi faróanna var að ljúka og við vorum fegin. Ég sofnaði með draumkennda mynd af Dahab, hvíldarstaðnum okkar til næstu daga við Rauðahafið.
Athugasemdir
Sæl Þórhildur og Kári!
En gaman að lesa bloggið ykkar, þvílí ævintýri....
Ég er sjálf að undirbúa mína eigin reisu svo að tips hvað skal sjá og hvað ekki í miðausturlöndum eru alger gullmoli.
Ég vildi bara kvitta fyrir mig og óska ykkur góðrar ferðar
Kveðja
Sigga Dögg (úr sálfræðinni)
Sigga Dögg (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 08:38
...og á 8.degi skapaði guð moskítóflugurnar bara svona uppá djókið.
En það virðist vera gaman hjá ykkur. Sjálfur var ég að koma frá Grænlandi og setti tæplega 400 myndir á facebook ef þið hafið ekkert að gera.
Jöklar, heildags göngutúrar, hressir færeyjingar, mishressir grænlendingar, ernir og djamm.
Er ekkert í Egyptalandi búið að minna þig á Vindla farós?
Egill
p.s Ég sendi þér einhverja skannaða Maryland pappíra eftir vinnu
Egill (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 13:18
Ég get alveg samsinnt þessu með túrismann sem skemmir menningarleg verðmæti, en ég tók þann pólinn í hæðina að hafa ofurgaman af túrismanum og öllu "kitschinu" sem honum fylgir. Samt má nú öllu ofgera, eins og þarna í N-Afríku.
Fararstjórinn, 10.7.2008 kl. 14:03
Mig langar að vera í hippabænum!
Astridur (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 14:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.