1.7.2008 | 18:50
Egyptaland
Erum núna búin að vera í fjóra daga í Egyptalandi og allt gengur vel. Eftir stórmerkilega ferð með ferju frá Jórdaníu komum við til Dahab á Sinai-skaga sjö tímum á eftir áætlun. Opinberir strarfsmenn hér gefa sér tíma í hlutina og sýna ekki metnað nema fyrir smá "extra". Í höfninni horfðum við upp á tugi heimamanna vera vísað frá ferjunni þar sem hún hafði verið yfirbókuð.
27.-28. júní: Daginn eftir skoðuðum við hippalegan Dahab-bæinn þar sem Bob Marley hljómar yfir rólegum síðhærðum gestum sem liggja í púðum við ströndina. Hostel og kaffihús bera nöfn eins og "Crazy House", "Laughing Buddah" og "Funny Mummy". Við eyddum deginum að snorkla í kóralrifunum og létum okkur hlakka til að koma hingað eftir 10 daga. Ætlunin er að koma aftur til Dahab að túrnum loknum og læra köfun. Síðan héldum við með hópnum til St. Catharine klaustursins við rætur Sinai-fjalls. Við fórum strax í háttinn því morgunverður var kl 1:30 og gengið var upp á toppinn í kolniðarmyrkri til að sjá sólina koma upp. Gangan var stórmerkileg. Vanir menn gengu í þrjá tíma alla leið upp en fitubollur leigðu sér kameldýr. Náttblindri Þórhildi leið ekki vel á uppleið þar sem kameldýr á rás birtust handahófskennt á göngustígum og kærðu sig ekkert um vegfarendur. Annars lýstu stjörnurnar (og stórfengleg vetrarbrautarslæðan) upp veginn og við komumst upp fyrir sólarupprás. Á þessu fjalli er Móses sagður hafa fengið boðorðin tíu frá guði. Þegar allir voru komnir niður, þreyttir og svefnlausir, mútaði leiðsögumaðurinn okkur inn í klaustur St. Katrínar. Þar er geymdur runninn sem Móses sá í logum og guð gaf honum fyrirmæli. Móses hafði þá verið einsamall hirðingi í eyðimörkinni um allnokkurt skeið. Einmitt.
Rúta alla leið til Kaíró undir Súez skurðinn. Þórhildur svaf alla leiðina. Þegar við loksins komum á hótelið náðum við að horfa á Spán-Þýskaland.
29.-30. júní, Pýramídarnir í Giza: Tjahh. Svíkja engan. Þrátt fyrir mikinn hita og þónokkurt áreiti sölumanna voru pýramídarnir og Sfinxinn ótrúlega heillandi. Við ákváðum að fara inn í pýramída Cephrens inn um neðanjarðarinnganginn (fjórir inngangar hafa fundist en enginn leiðir að gröf farósins). Inngangurinn leiddi niður í herbergi með tómri líkkistu. Gangurinn var mjög lítill og þröngur og loftið var eins og illa lyktandi gufubað. Það er ekki furða að margir fái innilokunarkast í ganginum. Eftir pýramídanna fórum við í fornminjasafnið (týpískur túristadagur í Kaíró) og skoðuðum m.a. dýrgripi úr grafhýsi Tutanhkamons. Safnið er hrikalega skipulagt, illa upplýst og rakt en þessar mestu gersemar fornaldar (og magn þeirra) gerðu ferðina vel þess virði. Um kvöldið fórum við beint á lestarstöðina þar sem við tókum næturlest niður með Nílarfljóti til Aswan. Á lestarpallinum var kynntur til sögunnar hinn margfrægi MR-"bolti" þar sem heimamenn fylgdust grant með gangi mála. Frá Aswan ætlum við að skoða fleiri hof og fornminjar í urrandi hita áður en við setjumst að í köfunarparadísinni Dahab.
Biðjum að heilsa öllum heima. Myndir frá Egyptalandi koma innan skamms. Jórdaníumyndir eru komnar á facebookið.
Athugasemdir
Sjitt hvað þetta er allt spennandi krakkar! Mikið langar mig til þessara staða sem þið hafið nefnt. Mér finnst þið ógeðslega dugleg í hitanum og náið að gera margt! Góða skemmtun í köfuninni!!
Bestu kveðjur,
Sunna
Sunna (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 09:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.